Sagan .
Af lífi og sál
Saga Roof Tops
Flestir eiga sér einhverja drauma og sumir þeirra rætast, en aðrir ekki eins og gengur. Þegar Svenni Guðjóns kom heim frá Englandi, síðsumars 1967, sumarið sem kallað hefur verið “blómasumarið”, ól hann í brjósti sér þann draum að stofna hljómsveit í anda svokallaðrar “soul” tónlistarstefnu, en henni hafði hann kynnst á klúbbum í London, sem einkum voru sóttir af þeldökku fólki, enda flestir flytjendur soultónlistar blökkumenn. Þar risu hæst nöfn á borð við Wilson Pickett, Otis Redding, Percy Sledge að ógleymdri sjálfri soul-drottingunni, Arethu Franklin. Reyndar hafði hugmyndin fyrst kviknað í kollinum á Svenna þegar hann barði augum breska blues- og djasstónlistarmanninn Georgie Fame og hljómsveit hans The Blue Flames, en sú sveit flutti einhvers konar blöndu af rythmablús og poppi, með örlitlu “djössuðu” ívafi. Í hljómsveitinni The Blue Flames voru tveir saxafónleikarar, sem ekki var algengt í dægurtónlist um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, þótt undantekningu á því mætti finna í soul-tónlistinni, sem trauðla verður leikin án blásara.
Sú hugmynd að stofna soul- hljómsveit uppi á Íslandi árið 1967 virðist þó í fljótu bragði harla langsótt, enda voru saxafónleikarar ekki á hverju strái hér á landi. Svenni vissi þó af einum, gamla spilafélaganum Guðna Pálssyni, en þeir höfðu spilað saman kornungir drengstaular í unglingahljómsvetinni Altó, sem hafði hafið feril sinn fyrir tíð Bítlanna, þegar menn reyndu að spila danstónlist eins og KK sextettinn. Guðni hafði í millitíðinni reynt fyrir sér í hljómsveitinni Tónum og þótti sannfærandi “týpa” í poppbransanum. Yngri bróðir Svenna, Gunni, hafði ásamt skólabróður sínum og nágranna á Nesveginum, Ara Jónssyni, haldið uppi merki Altó sem varð eins konar skólahljómsveit í Hagaskólanum. Og þegar Svenni hafði fyrir tilviljun heyrt þá Gunna og Ara syngja og spila saman bítlalög varð hann sannfærður um að þeir væru vel brúklegir í hljómsveit, þótt þeir væru að vísu enn undir lögaldri. En það vantaði bassaleikara. Jón Pétur, eldri bróðir Ara, hafði í byrjun ekki trú á fyrirtækinu, enda var hann “heimsfrægur” á Íslandi eftir veru sína í hinni vinsælu popphljómsveit Dátum. Því var leitað til Erlings Garðarssonar, sem hafði leikið með unglingahljómsveitinni Five Pens og þótti góð týpa og kvennagull, sem var ótvíræður kostur þegar skipað var í stöður í popphljómsveitum á þessum tíma. Ekki skemmdi heldur fyrir að hann átti sportbíl, sem vakti hvarvetna athygli á götum Reykjavíkur.
Línurnar lagðar
Mönnum var nú ekkert að vanbúnaði að hefja æfingar. Það eina sem vantaði var nafn á hljómsveitina og eftir nokkur heilabrot datt nafnið Roof Tops upp úr Guðna, en um þessar mundir var að komast í tísku á Íslandi að nefna hljómsveitir enskum nöfnum. Þetta þótti líka dálítið “soul-legt” nafn, með skírskotun til hinna þeldökku Four Tops, sem um þessar mundir voru að hasla sér völl sem skærustu stjörnur Tamla Motown útgáfunnar í Detroit, sem þá var Mekka soul-tónlistarinnar í heiminum.
Þeir félagar í Roof Tops urðu fljótlega ásáttir um að ekki dygði að vera eingöngu með soul-tónlist á efnisskránni heldur biði íslenski tónlistarbransinn ekki upp á annað en að spila jafnframt vinsælustu popplögin hverju sinni. Menn urðu þess líka fljótlega áskynja að Ara var einkar lagið að líkja eftir Paul McCartney í söng og því sjálfgefið að hrúga nokkrum bítlalögum inn á efnisskránna, ásamt auðvitað lögum með Stones, Hollies, Spencer Davis Group og mörgum fleiri sveitum sem vinsælar voru um þessar mundir. Þeim Roof Tops félögum þótti líka mikinn hvalreka hafa rekið á fjörur þeirra þegar breska hljómsveitin Traffic fór að senda frá sér plötur, en í þeim tónsmíðum mátti heyra í saxafóni. Ennfremur má nefna hljómsveitirnar Amen Corner og Foundations, sem áhrifavalda í tónlist Roof Tops á fyrstu árunum.
Fyrsta giggið
Roof Tops kom fyrst fram opinberlega í veitingahúsinu Glaumbæ í mars 1968. Undirtektir voru góðar og í raun betri en þeir félagar höfðu átt von á. Ef til vill var það dansvænn takturinn í soul-tónlistinni sem gerði gæfumuninn, en víst er að lagaval sveitarinnar var nokkuð frábrugðið því sem algengast var í íslenskri popptónlist á þessum tíma. Þarna var sleginn sá tónn, sem síðan átti eftir að vera aðalsmerki Roof Tops í gegnum allan ferilinn, það er hressileg danstónlist þar sem hvergi var slegið af stuðinu svo að varla var þurr þráður á samkomugestum eftir ballið. Sigurbjörn Eiríksson, veitingamaður í Glaumbæ, var staddur í húsinu þetta kvöld og eitthvað hefur hann séð í piltunum, því hljómsveitin var ráðin í nokkur kvöld í viðbót. Þar með fór boltinn að rúlla og Glaumbær varð eftir þetta eins konar “heimavöllur” Roof Tops fyrstu misserin, þótt sviðið ætti eftir að breiðast út um allt land smám saman. Nonni í Dátum, bróðir Ara, var einnig staddur í Glaumbæ þetta kvöld og viðurkenndi hann síðar að frammistaða sveitarinnar hefði komið sér verulega á óvart. Það leið heldur ekki á löngu þar til Nonni hafði gengið til liðs við Roof Tops og má segja að með honum hafi komið sú reynsla, og “þéttleiki” í bassaspilið sem nauðsynlegt var til áframhaldandi afreka.
Til að byrja með tók hljómsveitin öll þau “djobb” sem buðust, burtséð frá hversu vel var greitt fyrir spilamennskuna og stundum var spilað öll kvöld vikunnar. Spilagleðin var mikil og hún smitaði út frá sér. Ef til vill hefur sú staðreynd átt drýgstan þátt í að vinsældir Roof Tops urðu skjótari en þá félaga hafði dreymt um að þeir lögðu sig alla í tónlistina og spiluðu af lífi og sál, í orðsins fyllstu merkingu. Skipulagðar voru ferðir út á land sumarið 1968 og veturinn eftir bættust skólaböllin við, en á þeim vettvangi átti Roof Tops jafnan góðu gengi að fagna.
Plötuútgáfa
Í ársbyrjun 1969 var farið að ræða nauðsyn þess að gefa út hljómplötu og samkomlag náðist við Ólaf Haraldsson í Fálkanum um að gefa plötuna út. Við val á lögum á plötuna þótti sjálfgefið að leita í smiðju valinkunnra soul-tónlistarmanna og varð þar fyrst fyrir valinu gamalkunnur bandarískur “standard” , Try A Little Tenderness, í útsetningu Percy Sledge. Góðvinur Roof Tops, Stefán G. Stefánsson, var fenginn til að semja textann, sem hlaut nafnið Söknuður. Ennfremur var valið lag eftir Otis Redding, sem í meðförum Roof Tops hlaut nafnið Það fer ekki eftir því. Ekki var heldur stætt á öðru en að bjóða einnig upp á eitthvað frumsamið og urðu þá til lögin Fólk á flótta og Sjúkur draumur um lasið blóm, við ákaflega sérkennilegan og súrrealískan texta eftir Þorstein Eggertsson. Um þetta lag spunnust nokkrar deilur og voru menn ekki á eitt sáttir um hvort með þessu lagi hefðu Roof Tops sett heimsmet í hallærislegheitum, eða hvort þeir hefðu með þessu sannað að þeir voru langt á undan sinni samtíð hvað frumleika snerti??
Söknuður var eina lagið af þessari fyrstu plötu Roof Tops sem sló verulega í gegn. Í útvarpsþætti á RÚV á gamlársdag var lagið útnefnt mest spilaða lag stofnunarinnar árið 1969. Í framhaldi af útgáfu plötunnar jukust vinsældir Roof Tops verulega og má segja að hljómsveitin hafi troðfyllt samkomuhús um allt land næstu mánuðina. Vinsældir Söknuðar mörkuðu líka upphafið á náinni samvinnu milli þeirra Roof Tops félaga og Stefáns textahöfundar, sem gerðist nú umboðsmaður hljómsveitarinnar. Stebbi hafði fjárfest í íbúð í litlu húsi í Kópavoginum, sem almennt gekk undir nafninu “Blómalandið”, og varð eins konar athvarf þeirra félaga, enda var þar gjarnan efnt til fjörugra samkvæma eftir velheppnuð “gigg”.
Í ársbyrjun 1970 var reynt að fylgja eftir velgengni fyrstu plötunnar með útgáfu á tveggja laga plötu, sem hafði að geyma tvö erlend lög. Það voru lögin Lalena, eftir Donovan og bandarískt soul-lag úr smiðju Percy Sledge, sem hlaut nafnið Ástin ein. Hvorugt þessara laga náði því að fylgja eftir vinsældum Söknuðar og má segja að þessi hljómplata hafi aldrei náð því flugi eða vakið þá athygli sem að var stefnt.
Nýir straumar
Þegar hér var komið sögu, vorið 1970, voru þeir Guðni og Svenni farnir að hugsa sér til hreyfings. Guðni var á leið til Kaupmannahafnar í nám í arkitektúr og Svenni var sestur á skólabekk í Kennaraskóla Íslands og hafði ákveðið að eyða sumrinu á skógræktarstöð á Jótlandi. Þeir ákváðu því að segja skilið við hljómsveitina þá um vorið og héldu á vit nýrra ævintýra. Það var þó enginn uppgjafartónn í þeim Ara, Gunna og Nonna, sem áváðu að kalla til nýja menn í anda sönglagsins gamalkunna, að “alltaf má fá annað skip og annað föruneyti”, eins og þar segir, enda alkunn sannindi að alltaf kemur maður í manns stað.
Guðmudur Haukur Jónsson hafði getið sér gott orð sem söngvari hljómasveitarinnar Dúmbó frá Akranesi, en hann hafði tekið við söngnum þegar Sigursteinn Hákonarson, Steini, ákvað að leggja sönginn á hilluna árið 1968. Dúmbó hafði um árabil verið í hópi vinsælustu danshljómsveita landsins í hefðbundnum gullaldarrokkstíl, en vildu breyta um stíl og fengu Guðmund Hauk til liðs við sig í þeim tilgangi. Guðmundur Haukur hafði sagt skilið við Dúmbó haustið 1969 til að lesa undir stúdentspróf, en nú var hann til í slaginn á ný og hlýddi kallinu þegar þeir Roof Tops félagar leituðu tl hans. Með Guðmundi kom ný vídd í söng hljómsveitarinnar enda þóttu raddir þeirra Ara hljóma vel saman. Halldór Fannar, hljómborðsleikari úr Borgarnesi, gekk til liðs við Roof Tops um svipað leiti, en hann gerði stuttan stans.
Ýmis teikn voru á loft um breytingar í popp- og rokktónlist á þessum tíma, sem meðal annars má rekja til hljómsveita á borð við Deep Purple, Led Zeppelin og Steppenwoolf, en tónlist þessara hljómsveita einkenndist mjög af sterku og rokkuðu gítarspili.
Í ljósi þessara breytinga ákváðu Roof Tops að bæta auknum krafti í gítarspilið og leitað var til gítarleikara af Suðurnesjum, Vignis Bergmann, sem getið hafði sér gott orð með hljómsvetinni Júdas á undangengnum árum. Vignir sló til og með honum breyttist tónlist Roof Tops að miklu leyti, og má segja að með þessum breytingum hafi soul-tónlistin vikið fyrir kraftmiklu rokki. Vignir lék með Roof Tops í tæp tvö ár og á því tímabili sendu þeir félagar frá sér eina tveggja laga plötu með lögunum Lífið er leikur, eftir Vigni, og Eitt lítið tár, eftir Guðmund Hauk.
Þegar hljómsveitin Trúbrot fór þess á leit við þá Ara og Vigni að koma til liðs við hljómsvetinina gátu þeir ekki neitað, en eftir nokkra mánuði leitaði Ari aftur á heimaslóðir. Í millitíðinni komu nokkrir trommarar við sögu Roof Tops og má þar nefna Halldór Olgeirsson, Guðjón Hilmarsson og Hrólf Gunnarsson. Með endurkomu Ara kom í hljómsvetina gítarleikari af bandarísku bergi brotinn, Thomas Lansdown. Í hans tíð var gefin út tveggja laga hljómplata með lögum eftir Lansdown, en hún misheppnaðist í pressun.
Transparency
Í ársbyrjun 1974 höfðu þeir Roof Tops félagar ákveðið að ráðast í gerð hæggengrar breiðskífu og voru þeir staðráðnir í að vanda mjög til þeirrar útgáfu. Gunnar Ringsted, gítarleikari frá Akureyri, gekk til liðs við sveitina í febrúar 1974 og þar með var komin fram síðasta samsetning hljómsveitarinnar. Ámundi Ámundason hafði tekið að sér útfgáfu á plötunni og þann 1. apríl 1974 héldu þeir félagar til Oslóar, til að taka upp verkið í Roger Arnoff Studio. Með í för var Gunnar Þórðarson, sem var ráðinn framleiðandi og yfirumsjónarmaður hljóðvinnslunnar.
Öll lögin á plötunni voru frumsamin af liðsmönnum Roof Tops, að undanskildu laginu Rock Me eftir Gunnar Þórðarson. Segja má að útgáfa þessara plötu hafi markað hápunktinn á ferli Roof Tops, að minnsta kosti má slá því föstu að verkið beri hæst af því sem Roof Tops skilur eftir sig á tónlistarsviðinu. Hvergi var slegið af faglegum kröfum og er það samdóma álit margra tónlistarspekúlanta, sem síðar hafa kynnt sér verkið, að hér hafi vel tekist til og tónlistin hafi vel staðist tímans tönn. Í því sambandi ber ekki síst að þakka framlagi Gunnars Þórðarsonar við upptökustjórn.
Hins vegar er því ekki að leyna að Transparency hlaut ekki þá almennu athygli sem að var stefnt. Á því eru nokkrar skýringar. Í fyrsta lagi tafðist útgáfa plötunnar úr hömlu, meðal annars skemmdist fyrsta upplagið í pressun. Platan hafði þá verið auglýst grimmt, en vitaskuld kom bakslag í væntingarnar þegar platan kom svo ekki út fyrr en nokkrum mánuðum síðar. Í millitíðinni hafði það gerst að Ríkisútvarpið, sem þá var eini ljósvakamiðillinn, hafði tekið upp mjög stífa stefnu hvað það varðaði að spila ekki íslenska tónlist með erlendum textum. Plata Roof Tops hlaut því ekki þá spilun sem nauðsynleg var til að vekja almenna athygli og auk þess fékk hún litla umfjöllun í fjölmiðlum þegar hún loksins kom út.
Vorið 2006 hittust þeir Ari Jóns, Guðmundur Haukur og Svenni Guðjóns í útvarpsþættinum “Geymt en ekki gleymt” í Ríkisútvarpinu og röktu þar sögu Roof Tops. Þá kviknaði sú hugmynd að gefa út hljómplötuna Transparency á geisladiski og hugmyndin vatt upp á sig og er hér með orðin að veruleika.
Með þessari útgáfu vill hljómsveitin Roof Tops halda til haga ákveðnum kafla í íslenskri dægurtónlistarsögu og varðveita um leið minningu um skemmtilega og viðburðríka tíma. Hér er safnað saman upptökum úr hljóðverum og lifandi upptökum frá dansleikjum sveitarinnar í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar, en hafa ber í huga að þær upptökur eru gerðar með einföldu segulbandstæki Gunna Guðjóns, og tveimur hljóðnemum. Er það ósk liðsmanna hljómsveitarinnar að útgáfan verði hlustendum til ánægju og gleði og eigi eftir að ylja gömlum Roof Tops aðdáendum um hjartaræturnar, með sama hætti og vinnan við útgáfuna varð þeim sjálfum til ómældrar ánægju.
Music in the world.
Roof Tops

Roof tops (1967-75)
Roof tops 1968
Hljómsveitin Roof tops hafði nokkra sérstöðu í íslensku bítla- og hippasenunni á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, sérstaðan fólst í því að sveitin lagði áherslu á ameríska soultónlist, svokallað tamlatónlist, og innihélt blásara sem ekki var beint móðins í þá tíð. Sveitin spilaði þó ekki soultónlistina eingöngu því smám saman blönduðust aðrar stefnur prógramminu.
Roof tops var stofnuð í árslok 1967. Í upphafi voru í sveitinni Ari Jónsson söngvari og trommuleikari, Guðni Pálsson saxófónleikari, bræðurnir Gunnar gítarleikari og Sveinn orgelleikari Guðjónssynir og Erlingur Garðarsson bassaleikari, allir höfðu þeir félagarnir utan Erlingur, verið í hljómsveitinni Alto. Þannig skipuð fór sveitin af stað og vakti þegar athygli, ekki síst vegna souláhrifanna. Glaumbær varð fyrsti áfangastaður Roof tops vorið 1968 og þeir áttu eftir að leika þar oftsinnis síðan.
Fyrstu mannabreytingar í sveitinni urðu á árinu 1968 þegar Jón Pétur bróðir Ara söngvara tók við bassanum af Erlingi en Jón Pétur hafði þá þegar getið sér orðspor sem einn meðlima Dáta. Hann hafði einnig verið áður með þeim félögum í Alto fyrrum svo þarna var hún í raun endurreist, um tíma að minnsta kosti.
Snemma árs 1969 fóru þeir Roof tops liðar að vinna að plötu og voru fjögur lög tekin upp í þeirri lotu, tvö íslensk og tvö bandarísk soullög við íslenska texta. Síðar þetta ár kom platan út á vegum Fálkans og naut lagið Söknuður strax mikilla vinsælda og hefur reyndar fyrir löngu öðlast sígildi. Platan fékk mjög góða dóma í Vikunni.
Roof tops
Stefán G. Stefánsson sem samið hafði textann við Söknuð gerðist nú umboðsmaður Roof tops og lék sveitin nú víðs vegar um landið.
Sveitin sendi frá sér aðra smáskífu í upphafi árs 1970 með tveimur erlendum lögum við íslenska texta, Ástin ein og Lalena en sú plata vakti ekki þá athygli sem vonast hafði verið til, hún hlaut slaka dóma í Vikunni.
Í kjölfarið urðu mannabreytingar um vorið þegar þeir Sveinn og Guðni, sem hugðust fara í nám, yfirgáfu Roof tops en í þeirra stað komu þeir Guðmundur Haukur (Jónsson) sem getið hafði sér gott orð sem söngvari Dúmbó sextetts, og Halldór Fannar orgelleikari en hann átti síðar eftir að verða einn meðlima hljómsveitarinnar Fjötra á Litla Hrauni. Halldór Fannar staldraði ekki lengi við í bandinu, hætti um haustið 1970, en með tilkomu Guðmundar Hauks jókst fjölbreytnin í söngnum og gátu þeir félagar boðið upp á flóknari raddsetningar í lögum sínum. Samhliða því þyngdist tónlistin nokkuð í anda þeirrar tónlistar sem nú réði ríkjum meðal ungs fólks og til að mæta því bættist Vignir Bergmann gítarleikari í hópinn, sálartónlistin var á útleið. Vignir hafði áður leikið með hljómsveitinni Júdas.
1972 sendi Roof tops frá sér sína þriðju smáskífu, tveggja laga plötu með lögunum Lífið er leikur og Eitt lítið tár. Sú plata hafði ekkert cover, var seld á nærbuxunum einum saman eins og það var kallað. Fyrir vikið var hún lítið auglýst og fékk nánast enga athygli.
Roof tops um 1970
Miklar hræringar voru í hljómsveitabransanum hér heima á þessum tíma, ofurgrúppan Trúbrot hafði verið mynduð úr Hljómum og Flowers vorið 1969 og gnæfði yfir aðrar hljómsveitir á þeim tíma, og það var því engin spurning fyrir þá Ara og Vigni haustið 1972 þegar þeir Trúbrots-liðar buðu þeim stöðu trommu- og gítarleikara.
Reyndar hafði Ari nokkru áður verið stuttan tíma í Trúbrot þegar Gunnar Jökull yfirgaf þá sveit snögglega 1970 en hann hafði snúið jafnharðan aftur í Roof tops að því loknu. Nú var hins vegar ljóst að vera hans yrði lengri í ofurgrúppunni og spreyttu nokkrir trymblar sig á hlutverkinu næstu mánuðina, fyrst Guðjón Hilmarsson, þá Halldór Olgeirsson og síðastur Hrólfur Gunnarsson. Í stað Vignis kom Vilhjálmur Guðjónsson gítarleikari úr Gaddavír sem hafði stuttan stans í Roof tops en við hans hlutverki tók fljótlega Bandaríkjamaðurinn Thomas R. Lansdown.
Fálkinn hafði gefið út fyrstu þrjár plötur Roof tops en þetta ár 1973 kom fjórða smáskífan út, á vegum Ámunda Ámundasonar í ÁÁ records. Það fór fyrir þeirri plötu eins og þeirri á undan að hún hlaut litla athygli, en hún hafði að geyma tvö lög eftir Lansdown. Það hafði kannski mest að segja að pressan á plötunni misheppnaðist og því var hljómurinn á henni ekki sem skyldi.
Sumarið 1973 hætti Trúbrot störfum og þá birtist Ari gamli trommarinn aftur bak við settið hjá Roof tops, enn áttu þó eftir að eiga sér mannabreytingar áður en yfir lyki þegar Lansdown yfirgaf sveitina en Akureyringurinn Gunnar Ringsted kom í hans stað, sá hafði m.a. verið í hljómsveitinni Óvissu norðan heiða.
Roof tops – auglýsing í Morgunblaðinu fyrir jólin 1974
Þá kom loks að því að farið yrði í hljóðver til að taka upp stóra plötu en fyrrnefndur Ámundi stóð að baki þeirri útgáfu. Roof tops brá sér því til Oslóar í upptökur undir stjórn Gunnars Þórðarsonar í Roger Arnhoff hljóðverinu um vorið 1974. Platan sem síðan hlaut titilinn Transparency hafði að mestu að geyma lög eftir þá félaga.
Þegar Transparency leit dagsins ljós síðla árs 1974 eftir miklar tafir hlaut hún góðar viðtökur gagnrýnenda, til dæmis ágæta dóma í Alþýðublaðinu, en því miður fyrir Roof tops liða var sú einkennilega stefna í gangi hjá Ríkisútvarpinu á þessum tíma að spila ekki lög með íslenskum tónlistarmönnum ef þeir sungu á ensku. Því fór lítið fyrir vinsældum í útvarpi og drap það í raun niður alla almennilega sölu á henni, og varð sjálfsagt til þess að á endanum gáfust þeir félagar upp og hættu störfum árið eftir, 1975.
Þrátt fyrir að Roof tops hafi hætt störfum 1975 var sögu hennar þá ekki endanlega lokið. Sveitin kom saman á afmælistónleikum FÍH 1982 og er að finna lag með henni á tvöfaldri plötu tengdri þeirri afmælisveislu (FÍH 50 ára: 1932-1982) og ríflega þrjátíu árum eftir að Roof tops hætti (2006) kom út veglegt safn, Roof tops 1968-2006, sem hafði að geyma þrjár plötur og upptökur sem ekki höfðu komið út á plötum fyrr, en sveitin hafði verið dugleg að taka upp efni á þeim tíma sem hún starfaði. Þar er að finna ófáan gullmolann sem sýnir vel hvernig þessi fyrsta íslenska soulsveitin hljómaði á tónleikum og böllum, sem annars hefði glatast að eilífu. Í tilefni af útgáfunni kom sveitin saman og lék opinberlega.
Lög með Roof tops er einnig að finna á nokkrum safnplötum sem komið hafa út í gegnum tíðina, þar má nefna safnplöturnar Bítlar og blómabörn (1993), Aftur til fortíðar 1960-70 I (1990), Aftur til fortíðar 1970-80 II (1990), Óskalögin 3 (1999), Ástin er (1993), Blóm og friður (1992) og Svona var 1969 (2008).