top of page

Sagan .

Music in the world.

Lúdó & Stefán.

 

"ÞEIR VORU ENGUM LÍKIR" Það eru tæp fjörutíu ár síðan hljómsveitin Plútó og

"ÞEIR VORU ENGUM LÍKIR" Það eru tæp fjörutíu ár síðan hljómsveitin Plútó og söngvarinn Stefán Jónsson komu fyrst fram opinberlega á dansleik. Síðar var nafninu breytt í Lúdó og á skömmum tíma varð hljómsveitin ein þekktasta danshljómsveit landsins.

"ÞEIR VORU ENGUM LÍKIR" Það eru tæp fjörutíu ár síðan hljómsveitin Plútó og söngvarinn Stefán Jónsson komu fyrst fram opinberlega á dansleik. Síðar var nafninu breytt í Lúdó og á skömmum tíma varð hljómsveitin ein þekktasta danshljómsveit landsins. Lúdó sextettinn rifjar upp stemningu rokkáranna á Hótel Íslandi. Ólafur Ormsson ræddi við Stefán Jónsson, Berta Möller, Elfar Berg og Hans Jensson.

RIN um og eftir miðjan sjötta áratug þeirrar aldar sem senn er liðin eru ógleymanleg þeirri kynslóð sem þá var á unglingsárum. Þau voru viðburðarík og ótrúlega margt að gerast. Þá kom rokkið fyrst fram og gjörbreytti tónlistarsmekk unga fólksins og tísku. Helstu áhrifavaldar fyrir utan rokkstjörnurnar voru bandarískir kvikmyndaleikarar, t.d. Marlon Brando og James Dean, og þá kom ný fatatíska, leðurblússan og gallabuxurnar. Um líkt leyti og þessi villta og kraftmikla tónlist, sem á uppruna sinn að rekja til heimkynna fátækra blökkumanna í suðurríkjum Bandaríkjanna, náði að slá í gegn hóf hver stórstjarna rokksins á annarri feril sinn og upp úr miðjum sjötta áratugnum voru helstu áhrifavaldarnir, Elvis Presley, Chuck Berry, Little Richard, Jerry Lee Lewis, Fast Domino og Bill Hailey. Rokkið fór sem eldur í sinu um hinn vestræna heim.

Og auðvitað var ekkert eðlilegra en að í beinu framhaldi af rokkinu kæmu fram á sjónarsviðið hér á landi unglingahljómsveitir. Rokkæði greip um sig fljótlega eftir að Stjörnubíó frumsýndi Rock around the clock með Bill Hailey og hljómsveit 1957 og það sama ár kom hljómsveitin Plútó fyrst fram opinberlega, sem síðar varð ein þekktasta stuðhljómsveit landsins sem Lúdó sextettinn. Á Hótel Íslandi rifja Lúdó og Stefán nú upp gullaldarár rokksins.

Reykjavík er nánast óþekkjanleg frá árinu 1957. Þá var mestöll byggðin á svæðinu frá Hlíðunum að austan og að Grandavegi að vestan. Þá óku helstu töffarar sjötta áratugarins "rúntinn" í miðborg Reykjavíkur á amerískum fólksbílum og unglingspiltar þeirra ára höfðu rúðuna við framsætið opna, stilltu á útvarpið á Keflavíkurflugvelli eða Lög unga fólksins og yfir Lækjartorgið mátti heyra Elvis syngja Jailhouse rock, Little Richard, Long tall Sally og Jerry Lee Lewis, Whole lot of loving going on og greina röddina í þeim óviðjafnanlega útvarpsmanni Wolfman Jack. Tíðarandi þessara ára kemur að nokkru leyti fram í mynd Friðriks Þórs, Djöflaeyjunni.

Þá voru sætaferðir með rútum frá BSÍ á sveitaböllin fyrir austan fjall og Krossinn í Njarðvíkum og helsta stuðhljómsveit þeirra ára Lúdó sextettinn og söngvari hljómsveitarinnar Stefán Jónsson, kraftmikill rokksöngvari sem á skömmum tíma varð eitt helsta átrúnaðargoð unga fólksins.

Ég hitti þá fjóra meðlimi hljómsveitarinnar sem hafa verið með meira eða minna frá upphafi, sumir þó með hléum inni á milli, Stefán Jónsson, Berta Möller, Elfar Berg og Hans Jensson sem koma nú fram á Hótel Íslandi ásamt Gunnari Bernburg, Sveini Óla Jónssyni og Þorleifi Gíslasyni. Stefán heimsótti ég í Grafarvoginn. Hann hefur búið fjölskyldu sinni glæsilegt heimili í einbýlishúsi við Logafold sem minnir einna helst á hús í eigu Ewing-olíufurstanna í Dallas-myndaflokknum. Þannig uppskera atorkusamir og vinnufúsir Íslendingar. Stefán hefur líklega séð draum sinn rætast og getur stoltur litið yfir farinn veg. Úr stofuglugga er útsýni yfir að Gullinbrú. Fjölskyldan býr í hverfi fjarri skarkala og hávaða er fylgir öldurhúsum miðborgarinnar þar sem Stefán stundaði vinnu sína árum saman. Þá hefur hann einnig starfað um árabil sem sölumaður hjá bifreiðaumborðinu Ræsi hf.

Líkt og félagar hans í Lúdó er Stefán kominn á sextugsaldurinn. Allir eiga þeir það sameiginlegt að vera enn í fullu fjöri þó hárunum sé ýmist farið að fækka eða þau tekin að grána eins og gera má ráð fyrir þegar menn taka að reskjast. Annað sem þeir eiga sameiginlegt er lífsgleðin, fjörið sem löngum hefur einkennt þá félaganna.

Sölumaðurinn ­ dægurlagasöngvarinn

Ég bað Stefán að rifja upp aðdraganda þess að hann gerðist dægurlagasöngvari. Stefán er frísklegur og sællegur eftir jólahátíðina og áramótafagnaðinn með fjölskyldu og vinum.

"Upphafið má rekja til þess að ég var í Gagnfræðaskóla verknáms og að SAS tríóið varð til fyrir skólaskemmtun árið 1957 og við sungum þarna þrír saman, ég, Sigurður Elísson og Ásbjörn Egilsson. Við komum fram með hljómsveit úr skólanum. Síðan gerist það að auglýst var dægurlagasöngvasamkeppni hjá Svavari Gests. Ég ákvað að fara þangað, einhverjir voru að hvetja mig til þess. Þá mundi Svavar eftir okkur frá þessari skemmtun og spurði hvort ég vildi ekki koma með félagana. Við vorum svo prufaðir. Síðan var haldin skemmtun í Austurbæjarbíói eins og tíðkaðist í þá daga. Í framhaldi af því ákvað Tage Ammendrup að taka upp plötu með SAS tríóinu. Þá bjó Árni Ísleifsson til hljómsveit sem hann kallaði Rokksveit Árna Ísleifs. Á plötunni voru tvö lög, lagið Jói Jóns öðrum megin og Allt í lagi hinum megin. Lögin voru tekin upp við frumstæður aðstæður í Landssímahúsinu við Austurvöll og þau voru spiluð heilmikið og náðu vinsældum. Síðan gerðist það í framhaldi af plötuupptökunni að þeir komu að máli við mig, strákarnir sem síðar urðu félagar mínir í Plútó. Þeir voru reyndar byrjaðir fyrr og búnir að spila einhverja mánuði. Grunnurinn að Plútó var Elfar Berg, Berti Möller, Hans Jensson, Hans Kragh og svo Gunnar Kvaran sellóleikari. Þó Berti hafi verið söngvari frá byrjun vildu þeir fá annan söngvara og ég var fenginn til liðs við þá. Þetta var árið 1958 og ég var rétt um það bil sextán ára."

Hvar komuð þið fyrst fram eftir að þú byrjar með hljómsveitinni?

"Þeir voru búnir að vera í Skátaheimilinu og mig minnir að ég hafi komið þar fram einu sinni. Síðan var rætt við Sigurbjörn Eiríksson sem þá hafði tekið við Vetrargarðinum. Þetta vindur síðan upp á sig og kvöldin verða fleiri og fleiri í hverri viku. Fljótlega urðu breytingar. Berti hætti og fór að starfa á eigin vegum og í staðinn kom Ólafur Gunnarsson. Gunnar Kvaran hætti einnig skömmu síðar og þá byrjaði með okkur Sigurður Baldursson sem nú er látinn og var prentari. Þarna vorum við að ná fótfestu sem danshljómsveit og rokkið í hámarki árin 1959­60. KK sextettinn var á toppnum og við fórum með KK á Hótel Hveragerði, eitt vinsælasta húsið fyrir austan fjall í þá daga. Aðalkeppinautur KK var þá hljómsveit Björns R. Einarssonar með Ragnar Bjarnason sem söngvara. Sveitabransinn í gamla daga var mjög harður. Söngvarar með KK voru Ellý Vilhjálms og Þórir Roff. Við vorum kynntir þarna í Hveragerði og spiluðum hluta af dansleik og fengum fínar undirtektir. Þá var Pétur Guðjónsson rakari umboðsmaður KK og honum til aðstoðar var Gulli Bergmann. Ekki löngu síðar kom Kristján heitinn í Selfossbíói að máli við okkur og spurði hvort við vildum ekki spila hjá honum og við vorum alveg til í það. Pétur fékk þá Gulla til að sjá um málin fyrir okkar hönd. Um leið og við byrjuðum í Selfossbíói fengum við bullandi aðsókn og vorum komnir í hörkusamkeppni við KK sextett.

Og þá fór margt að gerast. Við urðum snemma mjög vinsælir og ein sterkasta hljómsveitin á Suðvesturlandi og kepptum við hljómsveitir fyrir austan fjall eins og hljómsveit Óskars Guðmundssonar og Safír sextett frá Selfossi sem báðar voru geysivinsælar á þeim árum. Þetta var orðin það mikil vinna að við vorum að miklu leyti í þessu. Á þessu tímabili var starfrækt Framsóknarhúsið sem flestir þekkja í dag sem Listasafnið eða hér áður Glaumbæ. Í kringum 1960 tóku ungir athafnamennn við rekstrinum, annar þeirra var Þorsteinn Viggósson. Þeir breyttu staðnum og kölluðu hann Storkklúbbinn og þá er Plútó ráðin í neðri sal en hljómsveit Finns heitins Eydals og Helena voru í efri sal. Þarna var hljómsveitin kvintett en við ákváðum að bæta öðrum saxófónleikara við og fengum Andrés heitinn Ingólfsson, sem þá var nýkominn heim frá námi í Bandaríkjunum, til liðs við okkur. Það var mikill uppgangur á staðnum um þetta leyti og þarna komu fram erlendir skemmtikraftar. Aðsóknin var slík að það voru þrjú til fjögur hundruð matargestir á mánudegi ekkert síður en á föstudegi eða laugardegi og við vorum með alls konar músík þó við værum auðvitað aðallega rokkarar.

Á þessu tímabili gerðist það að til varð félag eða fyrirtæki hér í bænum sem hét silfurgerðin Plútó. Hann kom að máli við okkur eigandi fyrirtækisins og var óhress yfir að við notuðum þetta nafn og taldi sig eiga einkarétt á nafninu og það gat vel hafa verið rétt hjá manninum. Þá breyttum við nafninu í Plúdó sextett. En hann var ekki ánægður með þá niðurstöðu og fór í mál við okkur og málið endaði í hæstarétti. Þar vorum við dæmdir til að leggja niður nafnið. Þá ákváðum við að taka P framan af og kölluðum hljómsveitina upp frá því Lúdó. Þrátt fyrir að það væri skrifað með d en ekki t.

Því miður gekk reksturinn ekki lengi í Storkklúbbnum. Það er svo í árslok 1961 að KK ákvað að hætta með sína hljómsveit. Við vorum þá ráðnir í Þórskaffi. Fyrst þrjú kvöld í viku. Síðan þróaðist þetta í að vera fimm kvöld í viku. Vinsældir okkar meðal unga fólksins voru miklar og við höfðum nóg að gera og komum fram flest kvöld vikunnar. Spiluðum mikið í Hlégarði, yfirleitt um hverja helgi, fyrir troðfullu húsi og yfir sumartímann fyrir austan fjall, uppi í Borgarfirði, eða suður á Keflavíkurflugvelli, mest þó hér á Suðvesturlandsundirlendinu. Við vorum í Þórskaffi alveg til 1966­67".

Og þá var bítlaæðið hafið. Og þið þá enn í fullu fjöri?

"Já, já, og bítlatímabilið var byrjað og í lagi að segja frá því að þá breyttist þetta. Nákvæmlega eins og þegar við lentum í samkeppni við KK og höfðum svo betur þá byrjaði ný samkeppni og þá við Hljóma og reyndar Dáta líka. Það gekk nú nokkuð vel framan af en þeir sigu á, vel að merkja. Við fylgdum tíðarandanum og vorum með nýjustu bítlalögin ekkert síður en þeir. Árið 1967 tvístraðist hljómsveitin að nokkru leyti. Þá kom ný hljómsveit Jóns Sigurðssonar. Í þeirri hljómsveit var hluti af Lúdómönnum, ég, Rúnar Georgsson sem hafði verið í hljómsveitinni um tíma, og skömmu síðar Hans Kragh. Sú hljómsveit var til nokkuð lengi. Við höfum síðan verið við þetta með hvíldum. Alltaf þó hluta úr ári og nú hin síðari árin, ég. Elfar, Hans Kragh, Berti og svo hafa verið með t.d. Þorleifur Gíslason og Rúnar Georgsson, Hans Jensson og Arthur Moon."

Komu ekki út plötur með Lúdó sextettinum á sjöunda áratugnum?

"Jú, en margir hafa undrast það að við skyldum ekki spila inn á fleiri plötur á þessum tíma. Það var 1962 að maður að nafni Helgi frá hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur kom að máli við okkur og vildi gefa út með okkur tveggja laga plötu. Nú, við settumst niður og fundum tvö lög, bæði erlend reyndar, annað lagið er búið að vera lífseigt í gegnum tíðina. Því ekki að taka lífið létt? Ómar Ragnarsson kom á staðinn og smellti inn texta við það, eins og honum er einum lagið. Á hinni hliðinni er lagið Nótt á Akureyri. Síðan gerðist ekkert í plötuútgáfu þar til ca 1965 að 4 laga plata kom út, þar sem Þuríður Sigurðardóttir söng fyrst inn á plötu. (Elskaðu mig).

Eftir að hljómsveit Jóns Sigurðssonar hætti fór ég ásamt nokkrum félögum nínum í Lúdó að spila á Keflavíkurflugvelli, í klúbbunum þar upp frá og þar vorum við í ein þrjú ár. Þaðan lá leiðin í Átthagasal Hótel Sögu og ég gekk þar inn í hljómsveitina með Elfari Berg, Hans Kragh og Berta og við vorum þarna á einkaböllum og árshátíðum í nokkur ár. Þar var Svavar Gests að skemmta sér, líklega árið 1976 og kom að máli við okkur þegar hann heyrði okkur fara með gömlu lögin og sagði: ­ Það væri nú gaman að prófa þetta. Að setja eitthvað af lögunum inn á plötu. Þá var Svavar orðinn stærstur í plötuútgáfu. Hjá Svavari var tekin upp tólf laga plata, Ólsen, ólsen og fleiri þekkt lög. Nú, platan seldist upp á skömmum tíma og var mikið spiluð í útvarpi. Mér skilst að hún hafi selst í um níu þúsund eintökum og á jólamarkaði var hún uppseld. Næsta ár var leikurinn endurtekinn og kom þá ný tólf laga plata. Þar var lag eins og Rokk í blokk, sú plata gekk einnig ágætlega.

Þessi gömlu góðu lög lifa og eru ótrúlega lífseig og það segir okkur vissa sögu. Aftur á móti hefur svo margt verið framleitt. Þú heyrir þetta örskamma stund og svo er þetta gleymt. Fátt af þessu nýrra lifir. Við höfum séð það í gegnum tíðina að rokkið á mjög sterkar taugar í flestum. Þetta er fjörug músík sem lífgar alla upp. Það á við um unga fólkið ekkert síður en það eldra. Frumkrafturinn er slíkur. Rokkið stenst tímans tönn."

Lögregluvarðstjórinn ­ gítarleikarinn

Berti Möller er varðstjóri á lögreglustöðinni við Hlemm. Hann var á vakt þegar ég kom þar í miðri viku. Hann er hávaxinn og þrekinn og þegar ég leit hann augum þar sem hann sat fyrir innan glerrúðu fannst mér að hann hlyti að hafa lyklavöld að þeim stofnunum sem skipta máli í þjóðfélaginu. Hann lagði ljósmyndamöppu á borð fyrir framan sig og tók að skoða gamlar myndir og rifja upp upphafið á ferli Plútó og brosti, strauk yfir hárið sem er tekið að grána nokkuð.

"Í fyrstu útgáfu af hljómsveitinni vorum við fjórir, ég, Elfar Berg, Hans Jensson og Hans Kragh. Þá fannst okkur vanta bassaleikarann og fengum til liðs við okkur Gunnar Kvaran og nokkru síðar, eða um mitt ár '58 bættist Stefán síðan í hópinn. Við vorum nokkrir saman niðri í Tryggvagötu þegar við hittum Stefán og þá var SAS tríóið á toppnum. Við buðum honum að vera með og þar með var hljómsveitin orðin kvintett. Upp úr því fórum við í mikla reisu og byrjuðum í félagsheimilinu Ölveri um verslunarmannahelgina '58. Síðan héldum við á Patreksfjörð, Bíldudal, Blönduós og enduðum í Ólafsvík og á Hellissandi. Þegar allur kostnaður af ferðinni hafði verið gerður upp áttum við níu hundruð krónur á mann sem þóttu töluverðir peningar á þeim árum."

Hver er uppruni þinn? Ertu Reykvíkingur?

"Já, og bjó á þessum árum í blokk á Birkimel 6 B. Það var mikil músík í mínu fólki þannig að músíkin varð hluti af mér og ég fékk gítar í fermingargjöf og lærði á hann og fór snemma að spila.

Ég vissi af pilti sem átti heima í næsta stigagangi við mig á Birkimelnum og var með herbergi í risi og spilaði á trommur, Hans Kragh heitir hann, og við vissum hvor af öðrum. Við byrjuðum að spila með Pálmari sem rekur hljóðfæraverslun Pálmars og Einari Loga á balli uppi á Akranesi."

Eftir það vildu þeir endilega fá okkur til að halda áfram. Við vorum ekki alveg nógu spenntir. Síðan fréttum við af Elfari og Hans Jenssyni og þá verður til upphafið að Plútó. Hansi var úr Bústaðahverfinu og Elvar úr Kópavoginum. Við spiluðum síðan mikið í Vetrargarðinum og um haustið '58 fór ég í nám og hætti og Ólafur Gunnarsson kom í staðinn.

Ég hélt síðan áfram í hljómsveitum næstu árin og var viðloðandi músík til 1964 að ég fór í lögregluna. Svo var ég aftur byrjaður 1967 og hef eiginlega spilað stöðugt síðan. Árið 1972 fór ég að spila aftur með gömlu félögunum og höfum við verið að meira eða minna síðan." Og stemningu rokkáranna ætlið þið svo að rifja upp á Hótel Íslandi?

"Já, og ég þykist vita að allur sá fjöldi sem man þessa stemningu og langar að upplifa hana aftur kemur og rifjar upp með okkur þessi ógleymanlegu ár."

Kaupmaðurinn ­ píanóleikarinn

Elfar Berg kom í viðtal frá Hafnarfirði þar sem hann starfrækir verslunina Holtanesti. Hann er fremur lágvaxinn, þrekinn og hefur líklega bætt við sig nokkrum aukakílóum um hátíðarnar eins og fleiri án þess að vera beinlínis með ístru. Dæmigerður athafnamaður með mörg stór áform.

"Þetta byrjaði eiginlega þannig að ég og Hans Jensson vorum að spila saman á harmonikku og saxófón og síðan komu hinir hver af öðrum, Hans Kragh, Berti, Gunnar Kvaran og Stefán. Við Hans Jensson spiluðum í byrjun í VR-salnum við Vonarstræti og KR-heimilinu. Ég var í Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Ég talaði við Magnús í PFAFF. Þá var hann orðinn virtur trommuleikari og við báðum hann að koma og spila með okkur. Hann hafði ekki tíma en benti okkar á Hansa Kragh og síðan þróaðist þetta í atvinnuhljómsveit, árið 1959 í Vetrargarðinum.

Fljótlega upp úr þessu byrjaði sveitaballsmenningin. Fyrsta stóra ballið okkar var í Félagsgarði í Kjós. Síðan lá leiðin í Selfossbíó um hverja helgi. Þar var mikið fjör. Það voru dæmi þess að það komu fimm, sex troðfullar rútur frá BSÍ og leigubílar í löngum bunum. Þarna voru stundum slagsmál. Einu sinni var svo mikið að gera hjá lögreglunni að þeir urðu að handjárna einhverja við ljósastaurana. Það var alveg pakkað inn í húsið og troðfullt og við skildum ekkert í því að við komumst ekki í gegnum húsið til að fara í pásu. Stuttu áður en við fórum í pásuna kom svo stór glufa á dansgólfinu og það kom fljúgandi hæna upp á senuna. Það hafði þá einhver gestanna farið inn í hæsnahús þarna í nágrenninu og stungið henni inn á sig."

Þú byrjaðir þá ekki sem píanóleikari?

"Nei, ég byrja að spila á harmonikku og svo lærði ég á básúnu hjá Birni R. í Lúðrasveitinni Svaninum og þar var Hans Jensson á saxófón. Þegar rokkið þróaðist gekk ekki lengur að spila á harmonikku, ég fór að spila á píanó.

Ég hef spilað með fjölmörgum hljómsveitum á milli þess em ég hef verið í Lúdó. Fékk t.d. góða þjálfun með Óla Gauk, Jóni Páli Bjarnasyni og Andrési Ingólfssyni." Hvað er þér minnisstæðast á löngum ferli með Lúdó?

"Minnisstæðust er velgengnin og samheldnin hjá okkur félögunum í Lúdó og hún hefði ekki haldist ef konur okkar hefðu ekki þekkst allan tímann. Þó svo að ég hafi nú stofnað Plútó þá hætti ég tiltölulega snemma eða árið 1961 og fór að spila í öðrum hljómsveitum þar til ég byrjaði aftur í Lúdó áratug síðar eða 1972. Lengst af á mínum ferli sem hljóðfæraleikari hef ég einnig starfað við annað. Fyrst sem prentari, síðan sem sölustjóri hjá Bifreiðum og landbúnaðarvélum og síðan með verslun."

Dúklagningameistarinn ­ saxófónleikarinn

Hans Jensson dúklagningameistari er önnum kafinn flesta daga vikunnar og hafði verið að störfum á Akranesi þegar hann kom í viðtal á laugardegi. Fremur hávaxinn og greinilega í góðu formi og ekki óvanur því að hafa heilmikið umleikis.

"Ástæðan fyrir því að hljómsveitin hélt svona lengi út og var mjög vinsæl var sú að það var þessi sami kjarni lengst af. Mórallinn var góður og samkomulagið gott og þess vegna tókst okkur að vinna vel saman. Ég var með frá byrjun og til 1967 að ég hætti.

Hver var aðdragandinn að því þú byrjaðir að spila opinberlega í danshljómsveit?

"Ég lærði hjá Braga Einarssyni og Vilhjálmi Guðjónssyni og var í einkatímum í Tónlistarskóla Reykjavíkur. Ég byrjaði að spila á altósaxófón en þegar Plútó var stofnuð var ég kominn með tenórsaxófón, annað þýddi ekki þegar rokkið var komið til sögunnar. Ég var kominn í iðnnám þegar ég byrjaði að spila. Ég hef gert ýmislegt annað en að spila í danshljómsveitum. Ég var í karlakórnum Stefni. Ég keypti mér jörð í Borgarfirði og var þar í ein þrjú ár og þar stofnaði ég kór, samkór Mýramanna og var fyrsti stjórnandi hans. Undanfarið hef ég verið að spila þegar við erum beðnir um og svo hef ég verið að spila jazz. Þegar ég hætti í Lúdó 1967 spilaði ég lítið sem ekkert í tíu ár. Svo byrjaði ég aftur að spila á böllum um 1980. Kom svo síðar inn í Lúdó. Hér áður fyrr var þetta mikil keyrsla og ótrúlega mikil vinna og maður varð að hvíla sig á þessu. Strax á fyrstu árunum tókum við sveitaballabisnessinn á einni helgi eins og hann lagði sig. Ég man eftir einu balli á Hvoli þar sem voru þúsund manns. Þegar maður lítur til baka voru þetta rosalega góðar tekjur sem við höfðum. Það hefur orðið mikil bylting síðan við vorum að spila þarna á fyrstu árunum. Í þá daga var einn míkrófónn fyrir söngvara og tvö hátalarabox."

Ragnar Ragnarsson byggingaverkamaður minnist þess þegar hann var sautján ára að hafa verið á dansleik þar sem hljómsveitin kom fram.

"Það var árið 1958. Ég var ekki vanur því að veita hljómsveitum sérstaka athygli. Nema þarna var allt öðruvísi hljómsveit sem spilaði ferskt, hrátt rokk. Þeir voru engum líkir og voru helsta stuðhljómsveitin. Ég læt taka frá fyrir mig miða á Hótel Íslandi um leið og miðasalan verður opnuð. Maður sleppir ekki svona tækifæri. ­ Að rifja upp gömlu árin með Lúdó og Stefáni."

SAS TRÍÓIÐ '57, f.v. Sigurður Elísson, Stefán og Ásbjörn Egilsson.

FRÁ hljómleikum í Austurbæjarbíói, líklega árið 1959. F.v. Gunnar Kvaran, Andrés Ingólfsson, Hans Jensson, Elfar Berg, Ólafur Gunnarsson og Stefán Jónsson.

LÚDÓ í maí 1963, f.v. Rúnar Georgsson, Sigurður Þórarinsson, Arthur Moon, Stefán, Baldur Már Arngrímsson, Hans Kragh og Hans Jensson.

MEÐLIMIR Lúdó 1958, f.v. Hans Kragh, Berti Möller, Elfar Berg, Hans Jensson og Gunnar Kvaran.

LÚDÓ 1962, f.v. Sigurður Þórarinsson, Ólafur Gunnarsson, Hans Kragh, Stefán Jónsson, Arthur Moon og Hans Jensson.

LÚDÓ árið 1966, f.v. Baldur Már Arngrímsson, Þorleifur Gíslason, Ólafur Benediktsson, Hans Jensson, Stefán Jónsson, Gunnar Bernburg og Sigurður Þórarinsson.

Morgunblaðið/Kristinn

SÖNGVARINN Stefán Jónsson.

LÚDÓ í dag ­ Stefán, Þorleifur Gíslason, Sveinn Óli Jónsson, Hans Jensson, Gunnar Bernburg, Berti Möller og Elfar Berg.

bottom of page