Sagan .
Music in the world.
Geislar.
Geislar (1965 – 1969)
Geislar frá Akureyri
Hljómsveitin Geislar frá Akureyri er öllu þekktara nafn en hinir reykvísku Geislar sem störfuðu litlu fyrr sunnanlands, enda naut lag þeirra Skuldir, nokkurra vinsælda og gekk reyndar í endurnýjun lífdaga með Bítlavinafélaginu tuttugu árum síðar.
Samstarfið var ekki alveg samfleytt alla tímann sem Geislar störfuðu en sveitin var stofnuð af nokkrum skólapiltum á Akureyri 1965 þótt hún hæfi ekki að spila að ráði fyrr en ári síðar, framan af var hún skipuð Sigurði J. Þorgeirssyni söngvara og gítarleikara, Friðriki Bjarnasyni gítarleikara, Erlingi Óskarssyni bassaleikara og Hermanni Sveinbjörnssyni trommuleikara. 1967 varð hún meira að segja nokkuð áberandi í auglýsingum dagblaðanna og þá var hún skipuð þeim Sigurði, Grími Sigurðssyni bassaleikara og söngvara, Árna Friðrikssyni gítar og sembalettleikara, Páli A. Þorgeirssyni trommuleikara og Freysteini Sigurðssyni söngvara. Sveiflukóngurinn skagfirski, Geirmundur Valtýsson var í sveit með þessu nafni sumarið 1965, hugsanlega er um þessa sveit að ræða.
Eitthvað lá starfsemi sveitarinnar niðri um tíma en vorið 1968 byrjaði hún aftur, þá skipuð Þorleifi Bjarnasyni trommuleikara, Sigurði fyrrum söngvara, Ingólfi Björnssyni (bróður Sigga Björns) söngvara og gítarleikara, Pétri Hjálmarssyni bassaleikara og Helga Sigurjónssyni hljómborðsleikara og söngvara.
1969 bauð Svavar Gests hljómplötuútgefandi Geislum að gefa út plötu og svo fór að fjögur lög voru tekin upp í Ríkisútvarpinu af Pétri Steingrímssyni. Þá voru þeir Sigurður, Pétur, Ingólfur og Helgi ennþá í sveitinni en Páll, gamli trommuleikarinn, hafði aftur tekið við settinu af Þorleifi. Pétur var síðan reyndar hættur þegar platan kom út og hafði Erlingur Óskarsson (sem var Vestfirðingur eins og Ingólfur) tekið aftur við bassanum.
Platan hlaut ekki sérleg góðar viðtökur þrátt fyrir að fyrrgreint lag (og sérstaklega texti Magnúsar Benediktssonar), Skuldir nyti vinsælda, hún fékk t.a.m. fremur slaka dóma í Tímanum en heldur betri í Morgunblaðinu.
Sagan segir reyndar að þeir Geisla-liðar hafi verið ósáttir við „sándið“ á plötunni enda hafi pressunin mistekist á henni, SG-hljómplötur hafi að þeim völdum þegið skaðabætur frá fyrirtækinu sem annaðist pressunina en platan samt sem áður verið send í dreifingu.
Hver svo sem ástæðan var þá störfuðu Geislar ekki lengi eftir útgáfu plötunnar, að öllum líkindum spiluðu þeir á sínu síðasta balli um haustið 1969. Hún hefur þó eitthvað komið saman og spilað í seinni tíð.
Glatkistan.