top of page

Sagan .

Music in the world.

Brimkló.

Brimkló   63-0.jpg   12   Nafnið Brimkló er ekki að finna í Íslenskri orðabók, enda nafn á hljómsvei og fundið upp og komið úr orðabók Árna Johnsen, þeim sama og fann hljómsveitinni Trúbrot nafn vorið 1969. Þá lagði hann fram lista með ýmsum sérkennilegum nýyrðum og var Brimkló eitt þeirra. Meðlimir nýrra hljómsveita sóttu gjarnan í smiðju Árna til að fá nöfn á sveitir sínar, en hann lumaði lengi vel á þessum orðalista sínum. Brimklóarnafnið lá því ónotað í nokkur ár og kom ekki fyrir almenningssjónir fyrr en með stofnun hljómsveitarinnar árið 1972. Það voru þrír fyrrum meðlimir Ævintýris, þeir Björgvin Halldórsson, Arnar Sigurbjörnsson og Sigurjón Sighvatsson sem stofnuðu bandið og fengu til liðs við sig trommuleikarann Ragnar Sigurjónsson sem verið hafði í Mánum og Hannes Jón Hannesson aðalmann þjóðlagatríósins Fiðrildi. Ætlunin var að feta í spor sveita eins og Eagles, Byrds, Poco og fleiri Bandarískra kántrýrokksveita og má því segja að Brimkló sé fyrsta íslenska hljómsveitin til að taka þessa tónlist upp á sína arma hér á landi, en þessi tónlistartegund átti miklum vinsældum að fagna í Ameríku. Fljótlega urðu þeir Brimklóarpiltar aufúsugestir í klúbbum á Keflavíkurflugvelli og smám saman náðu þeir eyrum og athygli íslenskra gesta og jukust vinsældir sveitarinnar jafnt og þétt. Árið 1974 var Björgvini boðið að taka þátt í endurreisn Hljóma. Við þetta brotthlaup Björgvins gerðist það skrítna að Jónas R. Jónsson tók stöðu hans, en Björgvin hafði einmitt sex árum áður tekið stöðu Jónasar R. sem söngvari Flowers. Með þessa liðskipan starfaði Brimkló í ein tvö ár og lék á dansleikjum vítt og breitt um landið og náði ennfremur að senda frá sér sína fyrstu smáskífu árið 1975 sem innihélt lögin Jón og Gunna og á bakhliðinni var lagið Kysstu kellu að morgni sem naut nokkurra vinsælda á Brimklóarböllunum upp frá því. Um þetta leyti var verið að opna fyrsta alvöru hljóðverið hér á landi og meðal þeirra ungu athafnamanna sem að því stóðu voru þeir Sigurjón Sighvatsson og Jónas R. Jónsson, en sá síðarnefndi gerðist fljótlega upptökustjóri í Hljóðrita og missti áhugann á þeysingi milli dansleikjastaða. Árið 1976 var allt í upplausn hjá Hljómum, Ðe lónlí blú bojs höfðu gengið sitt skeið á enda og Rúnar Júlíusson stofnaði útgáfufyrirtækið Geimstein. Rúnar var þess fullviss að sú tónlist sem Brimkló hafði verið að fást við myndi ná vinsældum og beitti hann sér fyrir því að fá Björgvin heim til Íslands, en hann hafði dvalið í London um nokkurn tíma. Það tókst og var nú hafist handa við að taka upp fyrstu breiðskífuna. Við það nutu þeir aðstoðar Magnúsar Kjartanssonar og stálgítarleikarans Gordon Huntley sem gefur plötunni óneitanlega þetta kántrýyfirbragð sem heyra má á henni. Platan sem hlaut heitið Rock ‘n’ roll öll mín bestu ár og kom út vorið 1976 sló í gegn, enda er þar að finna hvern gullmolann á fætur öðrum. Plötunni var fylgt eftir með tónleikaför um landið og með í för voru grínbræðurnir Halli og Laddi. Þessi tónleikatúr félaganna varð slík frægðarför að þeir virtust eiga hvert bein í landsmönnum næstu árin. Þessar vinsældir kölluðu á aðra plötu og var því haldið í Hljóðrita á ný og hófust tökur plötunnar Undir nálinni þann 8. janúar 1977 en þeim lauk ekki fyrr en 14 apríl. Þetta þótti langur upptökutíma í þá daga. Jónas R. var sem áður við upptökutakkana en gítarleikarinn B.J. Cole kom við sögu en hann átti eftir að leika inn á fjölda íslenskra platna næstu áratugina. Textarnir á þessari plötu komu úr smiðju Þorsteins líkt og á fyrstu plötunni, en einnig átti hirðskáld Ríó Tríósins, Jónas Friðrik nokkra texta. Platan var gefin út strax um vorið en um það leyti var verið að fagna því að eitt hundrað ár voru liðin frá því að grammófónsplatan var fundin upp og kannski á það sinn þátt í nafngift plötunnar. Í kjölfar plötunnar hélt Brimkló í viðamikla ferð og lék svo til á hverju byggðu bóli hringinn í kringum landið. Vorið 1977 fjölgaði í sveitinni þegar Guðmundur Benediktsson sem verið hafði í Mánum með Ragnari kom til liðs við sveitina. Hann þótti auk þess að vera góður söngvari vel liðtækur á píanó og gítar. Þessi innkoma Guðmundar virtist styrkja sveitina sem þetta sumar var því sextett. Um haustið ákvað Sigurjón Sighvatsson að hætta og klára háskólanám sitt og var Haraldur Þorsteinsson sem verið hafði með Eikinni fenginn í hans stað á bassann og á sama tíma hætti einnig Hannes Jón. Þessar mannabreytingar virtust lítil áhrif hafa á sveitina hvað vinsældir varðaði því svo virtist að almenningi væri sama hvaðan gott kæmi. Í sumarbyrjun 1978 kom svo út þriðja stóra plata Brimklóar sem var nefnd eftir einu laga plötunnar, Eitt lag enn. Sem áður áttu þeir Jónas Friðrik og Eggert textana en nú var lagavalið öllu poppaðra en áður. Þessi þróun hélt áfram á næstu plötu sem var Sannar dægurvísur er út kom vorið 1978. Þar voru 7 af 11 lögum plötunnar eftir meðlimi sveitarinnar. Aðall plötunnar var þó eftir Bandaríska rokkabillýsnillinginn Conway Twitty, en Jón Sigurðsson bankamaður þýddi textann um þau Nínu og Geira og var Sigrún Hjálmtýsdóttir fengin til að syngja lagið inn á plötuna með Björgvini. Nína og Geiri varð einn heitasti smellur sumarsins og naut lagið svo mikilla vinsælda að Jón Sigurðsson var heiðraður sérstaklega á næstu Stjörnumessu sem textahöfundur ársins, en Stjörnumessa var uppskeru- og verðlaunahátíð tónlistarfólks, ekki ólíkt því sem Íslensku tónlistarverðlaunin eru í dag. Það bar ekki mikið á Brimkló næstu þrjú árin ef undan eru skildar nokkrar mannabreytingar sem urðu á hljómsveitinni. Ragnhildur Gísldóttir hóf að syngja með þeim 1979 eftir að hún yfir gaf Brunaliðið, Guðmundur Benediktsson ákvað að hætta 1980, og Magnús Kjartansson settist við hljómborðið og þá kom Kristinn Svavarsson með saxafóninn sinn. En nokkru áður en sveitin hóf að hljóðrita næstu plötu hætti Ragnhildur og hélt á Grýlufund eftir tveggja ára dvöl í Brimkló. Þannig skipuð vann Brimkló að plötunni Glímt við þjóðveginn sem líklega hefur verið teiknuð upp sem ferðaplata sumarsins 1981, en hún kom út þá um vorið. Þrátt fyrir ágæti plötunnar var tíðarandinn að breytast og tónlistin hjá unga fólkinu með. Brimkló hélt úti ferðalögum og stuðballaharki en í árslok 1981 var ákveðið að leggja Brimkló til hvílu. Að baki voru fimm plötur auk hliðaverkefna hljómsveitarmeðlima og nokkur hundruð stuðballatúrar. Brimkló var orðið of stórt nafn í íslenskri tónlistarsögu til að hún hyrfi af sviðinu fyrir fullt og allt, því var hún fengin til að koma saman á ný þegar Félag íslenskra hljómlistarmanna efndi til 50 ára afmælisfagnaðar í Broadway í febrúar 1982. Árið 1996 var sveitin aftur vakin upp með tónleikahaldi og var þá gefin út safnplata með sveitinni sem fékk heitið Sígildar sögur. Enn á ný árið 2003 ákváðu þeir félagar að koma saman, og hlaupa undir bagga með Kántrýkóngi Skagastrandar Hallbirni Hjartarsyni og Kántrýhátíð hans um verslunarmannahelgina, um líkt leyti var verið að endurútgefa fyrstu plötur sveitarinnar. Þetta og móttökurnar virtust hafa kveikt gamla spilagleði í þeim félögum sem ákváðu að halda í hringferð sem byrjaði með tónleikum fyrir troðfullu húsi á veitingastaðnum Nasa við Austurvöll. Á þeim tónleikum komu fyrrum Brimklóarfélagarnir Sigurjón Sighvatsson og Jónas R. Jónsson fram með sveitinni og fluttu nokkur lög við þvílík fagnaðarlæti að ætla hefði mátt að þarna væru heimsþekktar súperstjörnur á ferð. Á tónleikum í Hlégarði kom Diddú fram með bandinu og söng söguna um Nínu og Geira og allt ætlaðu um koll að keyra. Á þessari hringferð Brimklóar um landið sannaðist kannski best að góð og grípandi tónlist verður það áfram hvort heldur sem hún er flutt 1972 eða 2003. Brimkló keyrir áfram um þjóðvegi landsins og leikur fyrir landsmenn lög sín sem löngu eru orðin þjóðareign.

© 2023 by RISING DRAGON. All rights reserved.

bottom of page